Færsluflokkur: Bloggar

Ásdís á Saffran

Eins og margir vita er Saffran einn af mínum stærstu styrktaraðilum en þeir gerðu samstarfssamning í upphafi árs við 6 íþróttamenn sem eru að stefna á Ólympíuleikana í London í sumar. Í kjölfarið fór af stað auglýsingaherferð sem kallast Leiðin á leikana. Hluti af herferðinni var að hver íþróttamaður hannaði sinn eigin rétt sem yrði á boðstólum á veitingastöðum Saffran í tvær vikur og fengi hann 100 kr aukastyrk fyrir hvern seldan rétt. Ég var síðust í röðinni og mitt tveggja vikna tímabil er í gangi núna en því lýkur á miðvikudaginn næsta. Rétturinn minn er engifermarinerður lax með bakaðri sætri kartöflu, salati með trönuberjum og makademíahnetum og sætri engifersósu.
Ásdís á Saffran 
Rétturinn smakkast alveg hreint ótrúlega vel þó ég segi sjálf frá og ég hef fengið mikið lof frá vinum og kunningjum sem hafa smakkað hann. Hann kostar 1.690 kr og er í boði út miðvikudaginn svo ég hvet alla eindregið til að fara og fá sér eina Ásdísi og styðja þannig í leiðinni við bakið á mér í undirbúningi mínum fyrir Ólympíuleikana.
 
Þar sem mikið hefur verið spurt hvort ekki sé hægt að styrkja mig meira eða á annan hátt ef fólk kemst ekki á Saffran hefur nú verið stofnaður bankareikningur þar sem hægt er að leggja inn frjáls framlög. Hér eru reikningsupplýsingarnar:
 
Reikningsnúmer: 0137-15-634000
Kennitala: 281085-2639
 
Ég er ofboðslega þakklát fyrir þann stuðning sem ég hef þegar fengið. Ég mun gera mitt allra besta til þess að standa mig sem allra best í sumar og þá sérstaklega á Ólympíuleikunum sjálfum til að gera alla þá sem staðið hafa við bakið á mér á einn eða annan hátt stolta.

Keppnistímabilið að fara af stað

Þá er bara komið að því svei mér þá. Tímabilið 2012 er að byrja í næstu viku og það eru bara 88 dagar þangað til ég keppi á Ólympíuleikvanginum í London! Mikið hrikalega flýgur tíminn! Ég mun byrja tímabilið á því að fljúga í kringum hálfan hnöttinn og keppa á tveim mótum í Brasilíu 16. og 20. maí. Þessi mót eru í Sao Paolo og Rio de Janeiro og ég er hrikalega spennt því ég hef aldrei komið til Suður Ameríku áður, hvað þá keppt þar. Eftir mótin í Brasilíu flýg ég aftur heim og keppi svo á JJ móti Ármanns, sem er jafnframt minningarmót um pabba hans Stebba þjálfara, 24. maí. Þá tekur við smá æfingatímabil áður en ég fer að öllum líkindum til Leverkusen og kasta þar 1. júní. Síðasta mótið mitt fyrir EM verður svo Demantamótið í New York 9. júní en ég var bara að fá það staðfest í gær að ég er komin inn þar. Það eru því hrikalega spennandi tímar framundan hjá mér núna og öll áhersla verður lögð á að halda mér heilli áfram og kasta þessu spjóti sem allra lengst.
 
Þegar ég bloggaði úti í Portúgal lofaði ég líka fréttum af smá breytingum en á dögunum var ég að skipta um umboðsmann. Við Robert Wagner slitum okkar samstarfi eftir 2 ár og nýji umboðsmaðurinn minn er Valentina Fedjushina. Hún er fyrrverandi kúluvarpari sjálf og kastaði lengst 21,60 m en fyrir þá sem ekki vita hefur bara verið kastað lengra en það einu sinni á síðustu tjah ansi mörgum árum. Mér líst mjög vel á hana og hlakka til að vinna með henni.

Æfingabúðir í Portúgal

Þessa stundina er ég stödd á Portúgal þar sem síðustu æfingabúðirnar fyrir keppnistímabilið eru að klárast. Ég er búin að eiga mjög góðar kastæfingar hérna svo mig er farið að klæja í puttana að fá að byrja að keppa. Það styttist einmitt líka í það en fyrstu tvö mót tímabilsins eru orðin staðfest en meira um það þegar ég kem heim.

Það er hrikalega góð aðstaðan hérna enda er mjög mikið af íþróttamönnum og þá sérstaklega spjótkösturum. Ekki amalegt að vera að æfa með mörgum heimsklassa kösturum. Þessar æfingabúðir eru búnar að byggjast mikið upp á léttleika til þess að hafa mig fríska í tæknivinnunni. Áður en við fórum út var ég búin að vera á mjög þungu prógrami og orðin vel þreytt. Núna voru aftur á móti engar þungar lyftingar og mun meira um hlaup. Ég finn þvílíkan mun á mér og þetta er líka búið að gera það að verkum að það var miklu auðveldara að laga tækniatriði á kastæfingum. Við erum að vinna í að breyta atrennunni minni mikið og ég er búin að vera furðu fljót að aðlaga mig að henni. Við vorum að lengja hana sem mun gera mér kleyft að nota hraðann sem ég hef til að kasta lengra. Það eru því mjög spennandi tímar framundan og ég get ekki beðið eftir að sjá hverju vinnan í vetur skilar.

Svona til tilbreytingar vorum við Stebbi ekki einu Íslendingarnir á svæðinu þar sem Óðinn og Helgi þjálfarinn hans eru einmitt í æfingabúðum hérna líka á sama tíma. Mjög skemmtileg nýbreytni það. Reyndar komu þeir degi fyrr og fara tveim dögum seinna. Fyrir þá sem ekki þekkja til þá getur orðið ansi súr og grófur húmor á meðal kastara (sérstaklega stráka) og kastþjálfara. Það eru því búin að vera ansi skrautleg umræðuefnin á tímabilum en sem betur fer er ég farin að sjóast aðeins í þessu eftir að hafa farið á þó nokkur mót með strákunum. :)

Ég læt þetta duga í bili og þegar ég kem heim koma frekari fréttir af fyrstu mótunum og smá breytingum hjá mér.


Vetrarkastmótið

Þá er fyrsta móti tímabilsins lokið en ég keppti í gær í borginni Bar í Svartfjallalandi. Ég kastaði lengst 57,65 m og endaði í 7. sæti. Þetta mót var aðallega hugsað sem æfingamót fyrir mig til að sjá hvar ég stend, hverju æfingarnar í vetur hafa skilað og hvað þarf að bæta fyrir sumarið. Það tók mig smá tíma að komast almennilega í keppnisgírinn í upphituninni og í fyrstu þremur köstunum í keppninni var ég svolítið eins og beljurnar þegar þeim er fyrst hleypt út á vorin. Út um allt! Rythminn í atrennunni var góður en ég var bara ekki að ná að vinna inn í þrjú síðustu skrefin og koma öllum þessum krafti út í spjótið. En í fjórða kasti náði ég að setja þetta allt betur saman og kastaði lengsta kastið mitt. Þá var eins og það kveiknaði á einhverjum neista, keppnisskapið kikkaði inn og ég hrökk í gang. Fimmta kastið var líka gott en spjótið fór samt ekki alveg eins langt og ég hélt það myndi gera þegar ég sleppti því. Í síðasta kastinu var ég svo ákveðin í því að keyra betur inn í vinstri fótinn og setja allt í þetta, brotin tánögl og tilheyrandi sársauki eða ekki, það var seinni tíma vandamál. Ég gerði svo nákvæmlega það, geymdi vel og þetta var langbesta kastið mitt nema að ég hitti ekki nógu vel í gegnum punktinn svo spjótið sveif ekki nógu vel og féll svo bara niður. Samt fór það rétt um 55 m svo þetta hefði klárlega verið langt kast hefði ég náð svifinu aðeins betra.

Það var því rosalega mikið jákvætt í þessu og margt sem við erum búin að vera að vinna í sem er að skila sér. Við sáum líka hvað það er sem við þurfum að vinna í og að það er greinilega að há mér að vera búin að kasta í net í mestallan vetur. Það er gott að vita að ég hef ennþá 2 mánuði til þess að laga þetta áður en tímabilið byrjar af alvöru. Þó að ég sé sátt með að hafa opnað með tæpum 58 m þá finnst mér eiginlega eftir daginn að þessar vegalengdir séu alls ekki lýsandi fyrir þann stað sem ég er á í dag.

Svo akkúrat núna hef ég val, ég get valið að svekkja mig á því að hafa ekki kastað lengra og haft áhyggjur af því að ég muni þess vegna ekki kasta lengra í sumar eða ég get verið ánægð með það að nú er ég búin að losna við fyrsta-móts-skrekkinn og er heil svo ég get farið heim að vinna í því sem ég gerði ekki nógu vel í dag til þess að kasta miklu miklu MIKLU lengra í sumar.

Ég ætla að velja seinni valkostinn!!


mbl.is „Rosalega bjart framundan“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Heimkoman og lífið sem atvinnumaður

Eftir ansi langt ferðalag komum við Stebbi heim til Íslands aftur fyrir viku síðan. Hjá mér tók við þriggja daga hvíld frá æfingum og svo létt vika í æfingum og meðhöndlanir til að endurhlaða batteríin eftir mjög erfiða æfingatörn. Það reyndist ekki auðvelt að koma beint úr 30-35 stiga hita í snjóinn hérna heima og mér sýnist vera eitthvað í það ennþá að ég geti kastað spjóti úti. Þá er bara ekkert annað að gera en að drífa sig í æfingabúðir aftur eftir að innanhússtímabilið er búið svo ég fái nú ekki of slæm fráhvarfseinkenni. Wink

Þessa dagana eru að verða miklar breytingar í mínu lífi í kjölfar þess að ég kláraði mastersnámið mitt í lyfjafræðinni í desember. Þetta þýðir í raun bara að nú er ég fyrir alvöru orðin atvinnumaður í minni íþrótt sem mun vonandi skila sér í ennþá lengri köstum. Þar sem ég er vön því að hafa mikið fyrir stafni, enda búin að vera í námi síðan ég var 6 ára, þá gat ég nú ekki hugsað mér að fara beint úr því að vera á fullu allan daginn í að gera ekkert nema æfa. Þess vegna ætla ég að reyna að fá einhverja örlitla vinnu í apóteki vegna þess að ég þarf að klára ákveðna vinnuskyldu til þess að fá réttindi sem lyfjafræðingur. Það mun líklega koma í ljós á næstu dögum hvort af því verði. Á móti því mun ég taka að mér örlitla verklega kennslu í lífeðlisfræði uppi í HÍ en hún tengist mastersverkefninu mínu. Auk þess ákvað ég að láta loksins verða af því að skella mér á Dale Carnegie námskeið en það er eitthvað sem er búið að blunda í mér lengi en ég hef aldrei drifið mig í það. Ég blogga klárlega meira um það síðar.

Næst á dagskrá hjá mér er að keppa í kúluvarpi á Reykjavík International Games og ég hvet alla til að leggja leið sína í Laugardalshöllina á milli 14:30 og 16:30. Ef þið komist ekki á staðinn þá verður sýnt beint frá mótinu á RÚV.


Nýtt ár, nýtt upphaf og nýtt blogg

Gleðilegt nýtt Ólympíuár 2012! 
 
Í tilefni af því að 2011 er lokið og ýmsar breytingar hafa orðið í mínu lífi að undanförnu þá ákvað ég að gera eina í viðbót og færa mig um set í bloggheimunum. Árið 2011 hefur verið mikil rússíbanareið fyrir mig þar sem gengið hefur á ýmsu. Þar sem ég hef miklu meira gaman af því að tala um jákvæðu hlutina þá ætla ég að fara aðeins yfir hápunkta ársins í máli og myndum.
 
Í febrúar byrjaði ég að vinna í mastersverkefninu mínu ásamt því að vera að klára síðustu kúrsana í mastersnáminu. Þessar rottudömur komu mikið við sögu í verkefninu.
 
Í mars keppti ég í þriðja skipti á Vetrarkastmótinu og hafnaði í 3. sæti með ágætis árangur í ekta íslensku haustveðri.
Á pallinum í Búlgaríu 
 
Í sumar kom hún Harpa mín til landsins með fjölskylduna og það var alveg yndislegt að geta verið með þeim og fengið að sjá stelpurnar. 
Við Óli með Hörpu og krúttunum 
 
Eftir erfitt sumar sem einkenndist af þrálátum meiðslum, matareitrun, vonbrigðum og gleði endaði ég tímabilið með stæl á Heimsmeistaramótinu í Kóreu með því að kasta ársbest og enda í 13. sæti. 
Ég á HM í Daegu 
 
Eftir keppnistímabilið fór ég í langþráð frí þar sem við skoðuðum New York í krók og kring á túrbóinu á nokkrum dögum.
Með Óla og Víði uppi á Rockafella center 
 
Eftir að hafa skoðað New York fórum við til Flórída að heimsækja hana Hörpu okkar og fjölskyldu og njóta lífsins í botn. Við byrjuðum á því að stökkva út úr flugvél með honum Brett sem var alveg ógleymanleg upplifun.
Eftir fallhlífastökkið með Brett og Víði 
 
Við skelltum okkur líka í Disney World og skoðuðum þar hátt og lágt og skemmtum okkur konunglega. 
Í Disney World 
 
Mér fannst alveg yndislegt að geta fengið að vera með litlu krúttunum mínum og fá aðeins að kynnast þeim og fylgjast með þeim vaxa og þroskast.  
 Litlu krútturnar mínar 
 
Þegar ég kom heim frá Flórída sökkti ég mér á kaf í að klára mastersverkefnið mitt og eyddi flestum mínum stundum í að skrifa, gera tilraunir og æfa og það tók oft vel á.
Ansi þreytt eftir erfiðan lærdómsdag 
 
Í lok nóvember kom svo loksins að því að ég skilaði mastersritgerðinni og varði hana í byrjun desember. Það gekk líka svona hrikalega vel og ég gæti ekki hafa endað þennan kafla í lífi mínu á betri hátt. 
Með mastersritgerðina útprentaða 
Að gera mig tilbúna til að kynna mastersverkefnið mitt 
 
Í lok árs komst ég í fyrsta skipti í topp 10 í vali Íþróttafréttamanna á Íþróttamanni ársins sem er mér mikill heiður. 
 
Ég enda svo árið og tek á móti nýju í frábærum æfingaaðstæðum úti í Suður Afríku en þessi mynd var tekin eftir síðustu kastæfingu ársins 2011 sem gekk alveg glimrandi vel.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband