Færsluflokkur: Lífstíll
Heimkoman og lífið sem atvinnumaður
Fimmtudagur, 19. janúar 2012
Eftir ansi langt ferðalag komum við Stebbi heim til Íslands aftur fyrir viku síðan. Hjá mér tók við þriggja daga hvíld frá æfingum og svo létt vika í æfingum og meðhöndlanir til að endurhlaða batteríin eftir mjög erfiða æfingatörn. Það reyndist ekki auðvelt að koma beint úr 30-35 stiga hita í snjóinn hérna heima og mér sýnist vera eitthvað í það ennþá að ég geti kastað spjóti úti. Þá er bara ekkert annað að gera en að drífa sig í æfingabúðir aftur eftir að innanhússtímabilið er búið svo ég fái nú ekki of slæm fráhvarfseinkenni.
Þessa dagana eru að verða miklar breytingar í mínu lífi í kjölfar þess að ég kláraði mastersnámið mitt í lyfjafræðinni í desember. Þetta þýðir í raun bara að nú er ég fyrir alvöru orðin atvinnumaður í minni íþrótt sem mun vonandi skila sér í ennþá lengri köstum. Þar sem ég er vön því að hafa mikið fyrir stafni, enda búin að vera í námi síðan ég var 6 ára, þá gat ég nú ekki hugsað mér að fara beint úr því að vera á fullu allan daginn í að gera ekkert nema æfa. Þess vegna ætla ég að reyna að fá einhverja örlitla vinnu í apóteki vegna þess að ég þarf að klára ákveðna vinnuskyldu til þess að fá réttindi sem lyfjafræðingur. Það mun líklega koma í ljós á næstu dögum hvort af því verði. Á móti því mun ég taka að mér örlitla verklega kennslu í lífeðlisfræði uppi í HÍ en hún tengist mastersverkefninu mínu. Auk þess ákvað ég að láta loksins verða af því að skella mér á Dale Carnegie námskeið en það er eitthvað sem er búið að blunda í mér lengi en ég hef aldrei drifið mig í það. Ég blogga klárlega meira um það síðar.
Næst á dagskrá hjá mér er að keppa í kúluvarpi á Reykjavík International Games og ég hvet alla til að leggja leið sína í Laugardalshöllina á milli 14:30 og 16:30. Ef þið komist ekki á staðinn þá verður sýnt beint frá mótinu á RÚV.
Lífstíll | Breytt s.d. kl. 13:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)