Færsluflokkur: Ferðalög

Keppnistímabilið að fara af stað

Þá er bara komið að því svei mér þá. Tímabilið 2012 er að byrja í næstu viku og það eru bara 88 dagar þangað til ég keppi á Ólympíuleikvanginum í London! Mikið hrikalega flýgur tíminn! Ég mun byrja tímabilið á því að fljúga í kringum hálfan hnöttinn og keppa á tveim mótum í Brasilíu 16. og 20. maí. Þessi mót eru í Sao Paolo og Rio de Janeiro og ég er hrikalega spennt því ég hef aldrei komið til Suður Ameríku áður, hvað þá keppt þar. Eftir mótin í Brasilíu flýg ég aftur heim og keppi svo á JJ móti Ármanns, sem er jafnframt minningarmót um pabba hans Stebba þjálfara, 24. maí. Þá tekur við smá æfingatímabil áður en ég fer að öllum líkindum til Leverkusen og kasta þar 1. júní. Síðasta mótið mitt fyrir EM verður svo Demantamótið í New York 9. júní en ég var bara að fá það staðfest í gær að ég er komin inn þar. Það eru því hrikalega spennandi tímar framundan hjá mér núna og öll áhersla verður lögð á að halda mér heilli áfram og kasta þessu spjóti sem allra lengst.
 
Þegar ég bloggaði úti í Portúgal lofaði ég líka fréttum af smá breytingum en á dögunum var ég að skipta um umboðsmann. Við Robert Wagner slitum okkar samstarfi eftir 2 ár og nýji umboðsmaðurinn minn er Valentina Fedjushina. Hún er fyrrverandi kúluvarpari sjálf og kastaði lengst 21,60 m en fyrir þá sem ekki vita hefur bara verið kastað lengra en það einu sinni á síðustu tjah ansi mörgum árum. Mér líst mjög vel á hana og hlakka til að vinna með henni.

Heimkoman og lífið sem atvinnumaður

Eftir ansi langt ferðalag komum við Stebbi heim til Íslands aftur fyrir viku síðan. Hjá mér tók við þriggja daga hvíld frá æfingum og svo létt vika í æfingum og meðhöndlanir til að endurhlaða batteríin eftir mjög erfiða æfingatörn. Það reyndist ekki auðvelt að koma beint úr 30-35 stiga hita í snjóinn hérna heima og mér sýnist vera eitthvað í það ennþá að ég geti kastað spjóti úti. Þá er bara ekkert annað að gera en að drífa sig í æfingabúðir aftur eftir að innanhússtímabilið er búið svo ég fái nú ekki of slæm fráhvarfseinkenni. Wink

Þessa dagana eru að verða miklar breytingar í mínu lífi í kjölfar þess að ég kláraði mastersnámið mitt í lyfjafræðinni í desember. Þetta þýðir í raun bara að nú er ég fyrir alvöru orðin atvinnumaður í minni íþrótt sem mun vonandi skila sér í ennþá lengri köstum. Þar sem ég er vön því að hafa mikið fyrir stafni, enda búin að vera í námi síðan ég var 6 ára, þá gat ég nú ekki hugsað mér að fara beint úr því að vera á fullu allan daginn í að gera ekkert nema æfa. Þess vegna ætla ég að reyna að fá einhverja örlitla vinnu í apóteki vegna þess að ég þarf að klára ákveðna vinnuskyldu til þess að fá réttindi sem lyfjafræðingur. Það mun líklega koma í ljós á næstu dögum hvort af því verði. Á móti því mun ég taka að mér örlitla verklega kennslu í lífeðlisfræði uppi í HÍ en hún tengist mastersverkefninu mínu. Auk þess ákvað ég að láta loksins verða af því að skella mér á Dale Carnegie námskeið en það er eitthvað sem er búið að blunda í mér lengi en ég hef aldrei drifið mig í það. Ég blogga klárlega meira um það síðar.

Næst á dagskrá hjá mér er að keppa í kúluvarpi á Reykjavík International Games og ég hvet alla til að leggja leið sína í Laugardalshöllina á milli 14:30 og 16:30. Ef þið komist ekki á staðinn þá verður sýnt beint frá mótinu á RÚV.


Síðasti dagurinn í Suður Afríku

Þá er fyrstu æfingabúðum þessa Ólympíuárs að ljúka. Á eftir endum við á kastæfingu áður en við leggjum í hann heim í snjóinn aftur í kvöld. Ég er búin að leggja vel inn í æfingabankann hérna úti og er algjörlega uppgefin. Það er kannski ekki skrýtið þar sem ég tók 27 æfingar á þessum 16 dögum og þar af 10 spjótkastæfingar. Eftir æfinguna á eftir tekur við þriggja daga kærkomin hvíld til að endurhlaða batteríin. Tæknivinnan gekk mjög vel hérna úti en það sem við erum að vinna í núna er að vinna strax af hægri fætinum inn í blokkina og að halda vinstri hendinni lengi og nota hana svo til að fá spennu yfir kassann. Ég er búin að ná þessum atriðum alveg ótrúlega vel inn og farin að gera þetta vel í yfir 90% af köstunum. Það er líka alveg ómetanlegt að ná inn smá kastmagni svona snemma á æfingatímabilinu. Þetta er sko mikill munur frá því að kasta í net inni í Laugardalshöll!

Við kvíðum að vísu fyrir því að koma heim aftur og þurfa að grafa bílana okkar út úr einhverjum snjóskaflinum í 35-40°C lægri hita en við erum búin að vera í síðustu rúmu tvær vikurnar. En þrátt fyrir það koma þessi tvö heim með bros á vör.

Við Stebbi og spjótin í Suður Afríku 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband