Færsluflokkur: Matur og drykkur
Ásdís á Saffran
Laugardagur, 12. maí 2012
Eins og margir vita er Saffran einn af mínum stærstu styrktaraðilum en þeir gerðu samstarfssamning í upphafi árs við 6 íþróttamenn sem eru að stefna á Ólympíuleikana í London í sumar. Í kjölfarið fór af stað auglýsingaherferð sem kallast Leiðin á leikana. Hluti af herferðinni var að hver íþróttamaður hannaði sinn eigin rétt sem yrði á boðstólum á veitingastöðum Saffran í tvær vikur og fengi hann 100 kr aukastyrk fyrir hvern seldan rétt. Ég var síðust í röðinni og mitt tveggja vikna tímabil er í gangi núna en því lýkur á miðvikudaginn næsta. Rétturinn minn er engifermarinerður lax með bakaðri sætri kartöflu, salati með trönuberjum og makademíahnetum og sætri engifersósu.
Rétturinn smakkast alveg hreint ótrúlega vel þó ég segi sjálf frá og ég hef fengið mikið lof frá vinum og kunningjum sem hafa smakkað hann. Hann kostar 1.690 kr og er í boði út miðvikudaginn svo ég hvet alla eindregið til að fara og fá sér eina Ásdísi og styðja þannig í leiðinni við bakið á mér í undirbúningi mínum fyrir Ólympíuleikana.
Þar sem mikið hefur verið spurt hvort ekki sé hægt að styrkja mig meira eða á annan hátt ef fólk kemst ekki á Saffran hefur nú verið stofnaður bankareikningur þar sem hægt er að leggja inn frjáls framlög. Hér eru reikningsupplýsingarnar:
Reikningsnúmer: 0137-15-634000
Kennitala: 281085-2639
Ég er ofboðslega þakklát fyrir þann stuðning sem ég hef þegar fengið. Ég mun gera mitt allra besta til þess að standa mig sem allra best í sumar og þá sérstaklega á Ólympíuleikunum sjálfum til að gera alla þá sem staðið hafa við bakið á mér á einn eða annan hátt stolta.