Eitt augnablik getur breytt öllu
Mánudagur, 2. janúar 2012
Það er alveg ótrúlegt hvað lífið getur tekið óvænta stefnu á örskotstundu. Ferill íþróttamanna er mjög viðkvæmur og það má ekki mikið út af bregða. Það sem kom fyrir Fanney og saga sem ég heyrði af spjótkastara hérna úti í Suður Afríku hafa virkilega vakið mig til umhugsunar um mikilvægi þess að átta sig á þeim forréttindum sem ég hef að geta farið á æfingu á hverjum degi. Ég er ekki frá því að þetta sé minn stærsti ótti.
Það er ung stelpa sem æfir hérna þar sem ég er í æfingabúðum núna sem lenti í bílslysi fyrir um mánuði síðan. Hún var að keyra alltof hratt og velti bílnum það illa að hún var heppin að sleppa lifandi. Stelpugreyið meiddist illa og var á gjörgæslu til að byrja með en svo kom í ljós að hún mjaðmagrindarbrotnaði á þrem stöðum. Fyrir venjulega manneskju kallast þetta að vera mjög heppin en fyrir íþróttamann þýðir þetta að hann mun aldrei ná þeim árangri sem hann annars hefði gert. Þessi stelpa fékk brons á HM unglinga 2010 og þessi tilraun hennar til að komast fyrr heim mun að öllum líkindum verða til þess að hún verður aldrei heimsklassa kastari.
Verum þakklát fyrir það sem við höfum og tökum skynsamlegar ákvarðanir því allt getur breyst á augnabliki. Hugur minn er hjá Fanneyju og ég vona svo sannarlega að hún hafi gott fólk í kringum sig og sé nógu sterk til að komast í gegnum þetta.
Sár stund þegar ljóst var að ferlinum væri lokið | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.