Vetrarkastmótið
Sunnudagur, 18. mars 2012
Þá er fyrsta móti tímabilsins lokið en ég keppti í gær í borginni Bar í Svartfjallalandi. Ég kastaði lengst 57,65 m og endaði í 7. sæti. Þetta mót var aðallega hugsað sem æfingamót fyrir mig til að sjá hvar ég stend, hverju æfingarnar í vetur hafa skilað og hvað þarf að bæta fyrir sumarið. Það tók mig smá tíma að komast almennilega í keppnisgírinn í upphituninni og í fyrstu þremur köstunum í keppninni var ég svolítið eins og beljurnar þegar þeim er fyrst hleypt út á vorin. Út um allt! Rythminn í atrennunni var góður en ég var bara ekki að ná að vinna inn í þrjú síðustu skrefin og koma öllum þessum krafti út í spjótið. En í fjórða kasti náði ég að setja þetta allt betur saman og kastaði lengsta kastið mitt. Þá var eins og það kveiknaði á einhverjum neista, keppnisskapið kikkaði inn og ég hrökk í gang. Fimmta kastið var líka gott en spjótið fór samt ekki alveg eins langt og ég hélt það myndi gera þegar ég sleppti því. Í síðasta kastinu var ég svo ákveðin í því að keyra betur inn í vinstri fótinn og setja allt í þetta, brotin tánögl og tilheyrandi sársauki eða ekki, það var seinni tíma vandamál. Ég gerði svo nákvæmlega það, geymdi vel og þetta var langbesta kastið mitt nema að ég hitti ekki nógu vel í gegnum punktinn svo spjótið sveif ekki nógu vel og féll svo bara niður. Samt fór það rétt um 55 m svo þetta hefði klárlega verið langt kast hefði ég náð svifinu aðeins betra.
Það var því rosalega mikið jákvætt í þessu og margt sem við erum búin að vera að vinna í sem er að skila sér. Við sáum líka hvað það er sem við þurfum að vinna í og að það er greinilega að há mér að vera búin að kasta í net í mestallan vetur. Það er gott að vita að ég hef ennþá 2 mánuði til þess að laga þetta áður en tímabilið byrjar af alvöru. Þó að ég sé sátt með að hafa opnað með tæpum 58 m þá finnst mér eiginlega eftir daginn að þessar vegalengdir séu alls ekki lýsandi fyrir þann stað sem ég er á í dag.
Svo akkúrat núna hef ég val, ég get valið að svekkja mig á því að hafa ekki kastað lengra og haft áhyggjur af því að ég muni þess vegna ekki kasta lengra í sumar eða ég get verið ánægð með það að nú er ég búin að losna við fyrsta-móts-skrekkinn og er heil svo ég get farið heim að vinna í því sem ég gerði ekki nógu vel í dag til þess að kasta miklu miklu MIKLU lengra í sumar.
Ég ætla að velja seinni valkostinn!!
Rosalega bjart framundan | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.