Æfingabúðir í Portúgal
Mánudagur, 23. apríl 2012
Þessa stundina er ég stödd á Portúgal þar sem síðustu æfingabúðirnar fyrir keppnistímabilið eru að klárast. Ég er búin að eiga mjög góðar kastæfingar hérna svo mig er farið að klæja í puttana að fá að byrja að keppa. Það styttist einmitt líka í það en fyrstu tvö mót tímabilsins eru orðin staðfest en meira um það þegar ég kem heim.
Það er hrikalega góð aðstaðan hérna enda er mjög mikið af íþróttamönnum og þá sérstaklega spjótkösturum. Ekki amalegt að vera að æfa með mörgum heimsklassa kösturum. Þessar æfingabúðir eru búnar að byggjast mikið upp á léttleika til þess að hafa mig fríska í tæknivinnunni. Áður en við fórum út var ég búin að vera á mjög þungu prógrami og orðin vel þreytt. Núna voru aftur á móti engar þungar lyftingar og mun meira um hlaup. Ég finn þvílíkan mun á mér og þetta er líka búið að gera það að verkum að það var miklu auðveldara að laga tækniatriði á kastæfingum. Við erum að vinna í að breyta atrennunni minni mikið og ég er búin að vera furðu fljót að aðlaga mig að henni. Við vorum að lengja hana sem mun gera mér kleyft að nota hraðann sem ég hef til að kasta lengra. Það eru því mjög spennandi tímar framundan og ég get ekki beðið eftir að sjá hverju vinnan í vetur skilar.
Svona til tilbreytingar vorum við Stebbi ekki einu Íslendingarnir á svæðinu þar sem Óðinn og Helgi þjálfarinn hans eru einmitt í æfingabúðum hérna líka á sama tíma. Mjög skemmtileg nýbreytni það. Reyndar komu þeir degi fyrr og fara tveim dögum seinna. Fyrir þá sem ekki þekkja til þá getur orðið ansi súr og grófur húmor á meðal kastara (sérstaklega stráka) og kastþjálfara. Það eru því búin að vera ansi skrautleg umræðuefnin á tímabilum en sem betur fer er ég farin að sjóast aðeins í þessu eftir að hafa farið á þó nokkur mót með strákunum. :)
Ég læt þetta duga í bili og þegar ég kem heim koma frekari fréttir af fyrstu mótunum og smá breytingum hjá mér.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.